Kópavogur
Kópavogur

,,Það er gott að búa í Kópavogi” sagði fyrrverandi bæjarstjórinn Gunnar heitinn Birgisson og margir taka efalaust undir það. Kópavogurinn er fjölmennasta bæjarfélagið á eftir Reykjavík en þar búa tæplega 40 þúsund manns. Kópavogurinn er sömuleiðis eitt af stærstu bæjarfélögum landsins landfræðilega séð og teygir sig yfir töluvert landsvæði og ótal hverfi. Allt frá Kársnesi upp í Vatnsenda má finna allt frá litlum íbúðum yfir í glæsivillur, það ættu því allir að geta fundið sína drauma fasteign í Kópavoginum.
Í Kópavogsdalnum má finna mikla veðursæld innan um fjölbreyttan gróður. Hverfin eru bæði nútímaleg og falleg og andrúmsloftið heimilislegt. Þrátt fyrir að vera í alfaraleið eru eignir bæjarins staðsettar í notalegu umhverfi, frá amstri og erli hversdagslífins
Afþreying í Kópavogi er eins og best verður á kosið. Siglingaklúbburinn Ýmir er með aðstöðu á Kársnesinu, Fimleikafélagið Gerpla er með tvö fimleikahús, í Versölum og á Vatnsenda. Breiðablik er svo með Fífuna í Kópavogsdalnum og HK með Kórinn í Vatnsendanum. Golfklúbbur Garðabæjar og Kópavogs samanstendur af tveimur fallegum golfvöllum, Leirdalsvöllurinn sem er 18 holu golfvöllur og Mýrin sem er 9 holu golfvöllur. Tvær vinsælar sundlaugar eru í bæjarfélaginu og eru bæjarbúar duglegir að nýta þær.
Í öllum hverfum Kópavogs má finna grunnskóla og leikskóla en í heildina eru 21 leikskólar og 9 grunnskólar í bæjarfélaginu. Menntaskólinn í Kópavogi tekur svo við eftir grunnskólagöngu. Kópavogsbær rekur einnig tvo tónlistarskóla og myndlistarskóla.
Mikil uppbygging er á Kársnesinu í Kópavogi og eru margar nýjar íbúðir þar til sölu og flestar með glæsilegu sjávarútsýni. Heilsulónið Skylagoon opnaði nýverið og er staðsett yst á nesinu og hefur frá opnun verið einstaklega vinsælt meðal landsmanna og erlendra ferðamanna sem hingað koma. Hvert sem litið er, er útsýnið fallegt á Kársnesinu og þar er um að ræða vel heppnað samspil náttúru og byggða. Vinsælt er að hjóla, ganga eða hlaupa umhverfis Kársnesið og er svæðið því kjörið til alslags útivistar.
Hverfi Kópavogs eru nokkur og kennileiti bæjarins dreifa sér víða um bæinn. Fyrir neðan Digranesveg, má í hjarta Kópavogs, finna skrúðgarðinn Hlíðargarð. Garðurinn er einstaklega skjólríkur og góður. Frá Kópavogsdal og upp að Digranesheiði liggur hinn vinsæli Himnastigi en göngufólk og hlauparar hafa nýtt sér hann í líkamsrækt.
Í Smárahverfinu er að finna heimavöll Breiðabliks, Kópavogsvöll og flykkjast bæjarbúar á leiki yfir sumarið og styðja sína menn. Þar má einnig finna Fífuna og sparkvelli í kringum Smáraskóla þar sem upprennandi knattspyrnumenn reyna fyrir sér.
Í Lindahverfinu og Salahverfinu er að finna íþróttafélagið Gerplu þar sem gríðarlega fjölmennt og öflugt íþróttastarf fer fram. Í Versölum er einnig Salalaug og líkamsrækt en íbúar í kring sækja mikið þangað.
Vinsælt er að hlaupa eða ganga frá Kópavogsdal upp í Kórahverfi en yfir Selhrygg liggur göngustígur með leiksvæðum og æfingatækjum.
Vatnsendinn samanstendur af kórum og hvörfum. Þar má finna íþróttahúsið Kórinn, þar sem HK er með aðstöðu og er hann fullur af krökkum á æfingum allan liðlangan daginn. Guðmundarlundur er skammt frá en þar er að finna leiktæki og grillaðstöðu inn í skjólsælum skógi.
Fjölskyldur eru jafn mismunandi og þær eru margar en í fjölbreyttu bæjarfélagi Kópavogs ættu allar fjölskyldur að geta fundið sína draumaeign.
Höf. Birgir Valur Birgisson, í námi til löggildingar fasteignasala.