top of page
Search

Hafnarfjörður & Norðlingaholt


Hafnarfjörður



Með sína 30.000 íbúa er Hafnarfjarðarbær þriðji stærsti bær landsins. Samfélagið er bæði fjölbreytt og lifandi en umfram allt samheldið og andrúmsloftið eftir því.Heimilislegt umhverfi er allstaðar ríkjandi í Hafnarfirði, blómstrandi atvinnulíf og öflug þjónustu við alla sem þangað koma.


Eitt helsta kennileiti bæjarins er hin ægifagra Flensborgarhöfn sem Hafnarfjarðarbær er kenndur við. Höfnin er staðsett í hjarta bæjarins og setur þannig fallegan svip á miðbæinn, innan um stöðugt mannlíf og verslun. Byggð í Hafnarfjarðarbæ varð til við höfnina í kringum sjósókn, verslun og siglingar og á rætur sínar að rekja allt til ársins 1400.


Það er því óhætt að segja að bærinn hafi að geyma stórbrotna sögu og arfleifð sem teygir sig allt til dagsins í dag. Þegar gengið er um götur og stræti bæjarins blasa við falleg og reisuleg hús þar sem áhrif fyrri ára gæta greinilega. Innan um gamla bæinn leynist þó stöðug uppbygging og er Hafnarfjörður sívaxandi samfélag, enda aðsóknin mikil og eftirspurn fallegra heimila í hverfinu sömuleiðis.


En það er margt fleira í Hafnarfirði heldur en bara falleg hús og fornar hafnir. Þar er stutt í íslenska náttúru og eitthvað í boði fyrir alla. Fallegt landslag umlykur annasaman bæinn þar sem víðáttumiklar hraunbreiður eru áberandi ásamt nokkrum stakstæðum fellum sem heimamenn og aðrir keppast við að klífa allan ársins hring. Dæmi um þetta eru Helgafellið fræga, Valhnjúkar og Ásfjall. Útivistarsvæðin eru einnig nokkur talsins og nóg er af leikvöllum, sparkvöllum, sundlaugum og þess háttar. Eins má nefna að golfklúbburinn Keilir sem staðsettur er í Hafnarfirði er með þeim stærri á landinu og er Hvaleyrarvöllurinn með þeim vinsælustu meðal golfara landsins. Skemmtilegar göngu- og hjólaleiðir liggja um bæinn allan og víða má finna einstakar náttúruperlur eins og t.d. Hvaleyrarvatnið sem markar eina af fjölförnustu hlaupaleiðum Hafnfirðinga.


Öflugt barna og unglingastarf er í Hafnarfirði og búa Hafnfirðingar að einu stærsta íþróttahúsi landsins, Kaplakrika. Mikil fótboltamenning er ríkjandi í samfélaginu og í raun allslags íþróttamenning en helstu íþróttafélög bæjarins eru FH, Haukar og fimleikafélagið Björk. Börnum, unglingum og öðrum býðst allskyns tómstundun og íþróttaiðkun innan hverfis og segja má að er Hafnarfjörðurinn einstaklega fjölskylduvænn að því leitinu til. Í bænum eru einnig 11 grunnskólar og hátt í 20 leikskólar, að viðbættum menntaskóla Hafnfirðinga, Flensborg.


Í Hafnarfirði er alltaf líf og fjör. Nóg er af veitingastöðum og notalegum kaffihúsum og þar sem víða er boðið upp á að sitja úti þegar til þess viðrar. Þar er einnig að finna ótal verslanir og ávallt er margt er um mannin í verslunarkjarna bæjarins, í Firðinum. Aðgengi er greitt fyrir bæði ökumenn og gangandi vegfarendur og ganga fjölmargar strætóleiðir í gegnum miðbæinn. Í bænum er nóg af árlegum viðburðum, tyllidögum og tónlistarhátíðum en þar ber Víkingahátíðin af sem haldin er í júní ár hvert og stendur þá yfir í 4 daga. Víkingahátíðin er ein sú elsta og stærsta sinnar tegundar en þá flykkast bæði landsmenn og erlendir gestir í Hafnarfjörðinn og njóta þar allskyns sýninga, fyrirlestra, útstillinga, fornra íþróttakeppna og annað slíkt sem minnir á víkingatímana gömlu.


Ljóst er að í Hafnarfirði er gott að vera. Bærinn er stútfullur af sögu og menningu, fallegri náttúru, afþreyingu, íþróttum og umfram allt, vinalegu fólki. Í Hafnarfirði er eitthvað fyrir alla og þangað eru allir velkomnir.

Norðlingaholt



Norðlingaholtið er eitt af nýjustu hverfum landsins og er staðsett í útjaðri Reykjavíkur. Fyrir þá sem hafa gaman að útiveru og njóta sín vel í óspilltri náttúru er Norðlingaholtið staðsett á besta stað. Uppbygging í Norðlingaholti hófst árið 2004 og er enn í fullum gangi. Hverfið er í raun nýjasta viðbótin við Árbæjarhverfið og er ört vaxandi samhliða mikilli eftirspurn.


Samfélagið er ungt en mikið líf og fjör er í götum hverfisins og borið hefur á því að hverfið sé vinsælt með ungra fjölskyldna. Hverfið býður upp á ýmsa möguleika en þar er að finna fjölbýlishús, parhús, raðhús, einbýlishús og ýmislegt fleira skemmtilegt. Norðlingaholtið hentar því fyrir alla, hvort sem um er að ræða fyrstu eign, kaup á draumaeinbýlishúsinu eða eitthvað þar á milli.


Hvert sem litið er má sjá náttúruperlur í grennd við Norðlingaholtið. Byggðin liggur þétt upp við Heiðmörk, eitt vinsælasta útivistarsvæði landsmanna. Fallegar gönguleiðir og hjólastígar liggja umhverfis hverfið og bjóða mörg heimilana upp á víðáttumikið útsýni yfir Heiðmörkina og fjöllin í fjarska. Rauðavatn og Elliðavatn eru bæði aðeins skotstund frá Norðlingaholtinu og er Paradísardalurinn einnig í göngufæri. Mikil veðursæld ríkir innanhverfis í Norðlingaholtinu og í takt við stórbrotna náttúru er einnig mikið dýralíf á svæðinu. Má þá meðal annars nefna fjölbreytt fuglalíf og mikla reiðmennsku á svæðinu á fjölförnum reiðstígum í Heiðmörkinni.


Hverfið er með þeim fjölskylduvænni á landinu og þar er að finna bæði leikskóla og grunnskóla. Báðir er staðsettir í miðju hverfinu og eru því í öruggu göngufæri fyrir alla íbúa Norðlingaholts. Íþróttafélagið Fylkir er hverfisfélagið og önnur tveggja íþróttahalla félagsins er staðsett nálægt skólanum. Auðveldar þetta börnum og unglingum aðgengi að ógrynni af íþróttum, hreyfingu og afþreygingu sem þar er í boði og hefur Fylkir ávallt verið með öflugt barna og unglingastarf.


Norðlingaholtið er bæði vel hirt og gróðið og að öllu leyti mjög snyrtilegt hverfi. Segja má að um sé að ræða hið klassíska úthverfi þar sem samfélagið er lítið og þétt,umhverfið heimilislegt og andrúmsloftið alveg einstaklega notalegt.


Höf. Birgir Birgisson, nemi til löggildingar fasteignasala.

37 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page