9 ráð til þess að fjármagna fyrstu eign
Að eignast fyrstu eignina hefur sjaldan reynst jafn flókið fyrir einstaklinga og það gerir í dag. Að byrja að safna fyrir íbúð er mjög erfitt fyrir þá sem hafa lifað frá mánuði til mánaðar og búa í leiguhúsnæði með þeim kostnaði sem því fylgir í dag. Hér eru því nokkur ráð til þess að stíga fyrstu skrefin.

1. Stoppa og fara yfir eyðslu síðustu mánaða
Fyrir marga er engin eiginleg ákvörðun tekin um að byrja að safna fyrir íbúð. Sumir hafa jafnvel alltaf lagt fyrir eða átt sparifé en aðrir taka ákvörðun um að byrja að safna og þá er mikilvægt að stoppa og fara yfir eyðslu síðustu mánaða, jafnvel ára. Með þessu má meta eyðslumynstrið og sjá hvar væri hægt að gera betur. Þetta gerir líka auðveldara að sjá fyrir um það hversu mikið er hægt að leggja til hliðar og þau næstu skref sem mögulegt er að taka.
2. Byrja á að skera niður þar þú myndir ekki finna fyrir
Ertu búin að vera í áskrift hjá sömu líkamsræktarstöðinni í ár án þess að mæta? Ertu að fylgja öllum helstu tískuverslunum á samskiptamiðlum? Ertu jafnvel með app í símanum fyrir ákveðnar búðir? Að segja upp áskriftum sem þú ert ekki að nota og að hætta að fylgja verslunum sem ýta undir kauphegðun geta verið lítil og einföld skref en breytt miklu þegar kemur að því að spara. Margt smátt gerir eitt stórt!
3. Byrja frekar fyrr en seinna
Jafnvel þó þú sért ekki að hugsa um að kaupa á næsta ári eða næstu tveimur getur samt verið skynsamlegt að byrja að safna. Í þessum efnum er í raun ekki hægt að byrja of snemma og líklegt að bitinn kunni að vera of stór ef of seint er hafist handa. Það þarf ekki að vera mikið, bara að koma sér af stað og eyrnamerkja ákveðinn pening fasteignarkaupum.
4. Taktu út pening og leggðu fyrir í byrjun mánaðarins
Ekki reyna að sjá hvort þú eigir eitthvað eftir í lok mánaðarins til að leggja fyrir. Taktu út reiðufé ætlað til eyðslu í byrjun mánaðarins og leggðu rest til hliðar. Reyndu svo eftir bestu getu að láta það duga út mánuðinn.
5. Skiptu í ódýrari bíl
Það að vera með bílalán getur til að byrja með haft mikil áhrif á greiðslumat og þar gæti líka reynst auka peningur sem brennur hratt upp ef þú bíður of lengi með að losa hann. Skiptu yfir í ódýrari bíl, allavega á meðan á þessu fjármagnsferli stendur.
6. Skoðaðu hvað er í boði hjá bankanum þínum
Margir bankar bjóða upp á þjónustu ætlaða einstaklingum í þínum sporum. Pantaðu tíma hjá ráðgjafa og farið saman yfir þín mál. Þar geta reynst leiðir og tækifæri sem þú hreinlega vissir ekki af. Leyfðu fagfólkinu að einfalda ferlið fyrir þig.
7. Vertu vakandi fyrir tilboðum og afsláttum
Flest símafyrirtæki eru komin með góð tilboð eða afslætti fyrir viðskiptavini sína og það sama gildir um bankana. Skoðaðu það sem er í boði og veldu frekar þá staði fram yfir aðra. Láttu sem dæmi hugann reika um hvað þig langar í að borða innan þessara tilboðslista frekar en bara hvað sem er, þetta sparar ekki bara pening heldur líka tíma!
8. Minnkaðu leigukostnað
Þetta ráð er sérstaklega ætlað þeim sem ekki eiga börn og eiga kost á því að minnka við sig eða jafnvel flytja inn til vina eða fjölskyldu á meðan söfnun stendur. Gætir þú til dæmis leigt með vini? Minnkað eða fundið ódýrara leiguhúsnæði? Leigt með fleirum? Allir þessir kostir gætu mögulega minnkað núverandi leigukostnað og sparað þér dágóða upphæð í hverjum mánuði.
9. Nýttu þér skattfrjálsa ráðstöfun séreignarsparnaðar
Frá og með 1. júlí 2017 er þeim einstaklingum sem kaupa/byggja sér íbúðarhúsnæði í fyrsta skipti annars vegar heimilt að fá útborguð viðbótariðgjöld sem greidd hafa verið til séreignarlífeyrissjóðs og hins vegar að greiða iðgjöld frá mánuði til mánaðar inn á lán sem tryggð eru með veði í íbúðinni. Oft er þetta mjög hentug leið þar sem séreignarsparnaður er tekinn sjálfkrafa af launum fyrir skatt. Hér er í raun á ferðinni ný og gjörólík leið til að safna fyrir íbúð og ein sú besta hingað til.